Exhibitions

Press photo 

Laugardaginn 9. mars var sýningin Myndir ársins 2012 opnuð í Listasafni Kópavogs-Gerðarsafni. Veitt verða ljósmyndaverðlaun í sjö flokkum og tvö bestu myndskeið ársins 2012 verða einnig verðlaunuð. Samhliða fer fram veiting Blaðamannaverðlauna í fjórum flokkum. Gestasýning Blaðaljósmyndarafélagsins verður opnuð á neðri hæð safnsins. Að þessu sinni sýnir Þórir Guðmundsson myndir sem hann hefur tekið í ferðum sínum úr alþjóðlegu hjálparstarfi á vegum Rauða kross Íslands. Sýningin ber heitið Á vettvangi vonar. Á henni eru myndir teknar á síðastliðnum 17 árum í Mið-Asíulýðveldum gömlu Sovétríkjanna, Kína, Bangladess, Víetnam, Norður-Kóreu, Malaví, Síerra Leone, Sómalíu, Haítí og víðar þar sem neyð af ýmsum toga hefur kallað á alþjóðlega hjálp. Myndirnar sýna bæði átakanlegan veruleika fólks í neyð og hvernig alþjóðleg aðstoð veitir von á ögurstund. Þetta er í 19. skipti sem sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands er haldin í Gerðarsafni og hefur sýningin jafnan verið ein sú fjölsóttasta á safninu. Í ár voru 133 myndir valdar á sýninguna úr tæplega 1000 myndum sem bárust í forvalið. Sýningin stendur til og með 28. apríl nk.